Þýskalandsmeistarar Bayern Munchen tryggðu sér í kvöld sæti í úrslitaleik þýsku bikarkeppninnar þegar liðið lagði smálið St.Pauli 3-0 í undanúrslitunum. Owen Hargreaves kom Bayern yfir á 15. mínútu leiksins og það var svo Claudio Pizarro sem innsiglaði sigurinn með tveimur mörkum á fimm mínútum undir lok leiksins. Bayern mætir Frankfurt í úrslitaleik keppninnar um mánaðarmótin.
