Menning

Snertir furðulítið

Ein til frásagnar - Immaculée ilibagiza og Steve Erwin
:Þýðandi: Karl Emil Gunnarsson
Ein til frásagnar - Immaculée ilibagiza og Steve Erwin :Þýðandi: Karl Emil Gunnarsson

Persónulegar harmsögur hafa átt upp á pallborðið hjá lesendum á Vesturlöndum undanfarin misseri, eins og bækur á borð við Eyðimerkurblómið, Ambáttin og Brennd lifandi bera vott um.

Vissulega geta frásagnir fólks sem reynt hefur grimmd mannanna á eigin skinni verið okkur hinum holl og gagnleg áminning og í þeim felst mótspyrna gegn þeirri leiðu tilhneigingu að smætta fórnarlömb ódæðisverka niður í kalda tölfræði.

Í bókinni Ein til frásagnar rifjar Immaculée Ilibagiza upp hvernig hún lifði af helförina í Afríkuríkinu Rúanda fyrir röskum áratug, þegar tæpri milljón Tútsa var slátrað fyrir opnum tjöldum og umheimurinn fylgdist aðgerðalaus með. Immaculée komst lífs af með því að hírast vikum saman ásamt sex öðrum konum á klósettkytru á heimili prests, sem skaut yfir þær skjólshúsi. Öll fjölskylda hennar lét lífið í ógnaröldinni, fyrir utan elsta bróður hennar sem bjó erlendis.

Skemmst er frá því að segja að Ein til frásagnar er ekki vel heppnuð. Það er erfitt að fara út af sporinu þegar jafn afdrifaríkir atburðir og þjóðarmorðið í Rúanda á í hlut (hin um margt gallaða kvikmynd Hótel Rúanda er gott dæmi um þegar áhrifarík saga hefur betur gegn agnúum framsetningarinnar) en bókin kemur ógnaröldinni ekki nærri nógu vel til skila. Með öðrum orðum snertir hún lítið við lesandanum.

Miklu púðri er eytt í lýsingu Immaculée á fjölskyldu sinni og af henni má helst skilja að hún sé komin af dýrlingum. Það er auðvitað engin furða að hún skuli minnast fjölskyldu sinnar hlýlega en fyrir lesandann draga útópísku æskuárin úr raunsæi frásagnarinnar. Þá leikur guðsótti aðalpersónunnar stórt hlutverk, full stórt að mínu mati en miklu bleki er eytt í lýsingar á því hvernig Immaculée fylltist ítrekað heilögum anda á ögurstundu og fann kraft í trúnni til að fyrirgefa kvölurum sínum.

Sáralítið er sagt frá þjáningarsystrum Immaculée sem kúldruðust með henni á baðherberginu í þrjá mánuði. Bakgrunnur þjóðarmorðsins er einfaldaður mjög og sögumaður er á köflum mótsagnakenndur, hafnar til dæmis yfirleitt að nokkuð greini að Tútsa og Hútúa en þó finnast dæmi þar sem aðalsöguhetjan gengst við hinni tilbúnu skiptingu.

Margt er sannarlega vel gert í þessari bók; lýsingar á hvernig fólk gekk múgæsingunni á vald og hikaði ekki við að myrða nágranna sína með köldu blóði, eru til dæmis óhugnalegar.

Sögumaður og Steve Erwin, skrásetjari Immaculée, virðast aftur á móti hafa færst of mikið í fang. Bókin er tæplega 300 blaðsíður en heldur ekki dampi, endurtekningar eru margar og yfirleitt óþarfar. Miðað við framsetningu hefði sennilega farið betur á að gera þetta að löngu blaðaviðtali en fullburða bók. Á heildina litið er Ein til frásagnar ekki sérlega reisulegur bautasteinn einhverra ömurlegustu atburða seinni tíma.

Bergsteinn Sigurðsson






Fleiri fréttir

Sjá meira


×