Viðskipti innlent

Álagning og framlegð hækkar hjá Högum

Grunnrekstur Haga, sem reka Bónus-keðjuna, batnar verulega á milli ára Afkoma af matvörumarkaði er enn óviðunandi að mati stjórnenda félagsins.
Grunnrekstur Haga, sem reka Bónus-keðjuna, batnar verulega á milli ára Afkoma af matvörumarkaði er enn óviðunandi að mati stjórnenda félagsins. Markaðurinn/Sigurður Jökull Ólafsson

Grunnrekstur Haga, stærsta verslunarfyrirtækis landsins, batnaði töluvert á fyrri hluta reikningsársins samanborið við sama tíma í fyrra. Félagið tapaði 121 milljón króna á tímabilinu 1. mars til loka ágúst á móti 708 milljóna króna tapi árið áður. Aftur á móti skilaði félagið rekstrarhagnaði fyrir afskriftir (EBITDA) upp á rúman einn milljarð króna á móti 131 milljóna króna rekstrartapi fyrir afskriftir í fyrra.

Á síðasta ári hafði verðstríð á matvörumarkaði neikvæð áhrif á rekstur Haga en greina má þess merki að rekstur stórmarkaða fari batnandi þótt stjórnendur Haga telji framlegð af matvörurekstri enn vera óviðunandi.

Framlegð nam 5.639 milljónum króna og hækkaði um þriðjung á milli ára en hlutfall framlegðar af sölu hækkaði úr 21,2 prósentum í 25,4 prósent. Meðalálagning hækkaði um 7,2 prósentustig og nam 34 prósentum.

Finnur Árnason, forstjóri Haga, er nokkuð sáttur með afkomu félagsins í heildina en bendir á að framlegð í hittifyrra hafi verið betri í en í ár. „Það er ljóst að enn er mikil samkeppni í gangi á matvörumarkaði og sumar mjólkurvörur eru seldar undir kostnaðarverði. Framlegð í matvörunni er til lengri tíma ekki viðunandi."

Í sérvörunni lýtur reksturinn allt öðrum lögmálum, þar sem varan er jafnan dýrari. Hagar fjárfestu grimmt í sérvöruverslunum í Kringlu og Smáralind fyrr árinu og gengur að sögn Finns ágætlega að samþætta rekstur þeirra við rekstur Haga. „Við teljum okkur vera með eitt besta safn vörumerkja í smásölurekstri sem við getum hugsað okkur."

Velta Haga, sem samanstendur meðal annars af Bónusi, Hagkaupum, Debenhams, nam 22,2 milljörðum króna á fyrri hluta reikningsársins og jókst um ellefu prósent á milli ára.

Finnur telur ljóst að samkeppni muni aukast á öllum sviðum verslunar á næstu árum vegna þess mikla framboðs sem verður á verslunarrými á næstu misserum. Fyrirtækið Hagar tekur sjálft aðeins lítinn hlut í þessari aukningu en hugmyndir eru uppi um að færa og breyta Hagkaupsverslunum á Akureyri, í Garðabæ og á Seltjarnarnesi.

Baugur á stærstan hlut í Högum, um 73 prósent en félagið keypti um fjórðungshlut af Fasteignafélaginu Stoðum fyrr á árinu. Aðrir eigendur Haga eru félög í eigu Jóhannesar Kristinssonar og Pálma Haraldssonar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×