Menning

Ófétin komin til Hveragerðis

Ævintýri ófétanna Saga og myndskreytingar Rúnu K. Tetzschner vekja lukku hjá yngstu lesendunum.
Ævintýri ófétanna Saga og myndskreytingar Rúnu K. Tetzschner vekja lukku hjá yngstu lesendunum.

Eftir endilöngu gólfi bókasafnsins í Hveragerði liggur djúp og mikil sprunga sem er eitt af undrum bæjarins. Sprungan kom í ljós meðan verið var að byggja húsið og geta gestir nú dáðst að þessu náttúrufyrirbæri gegnum gler í gólfinu.

En undrin eru fleiri á bókasafninu í Hveragerði því handan sprungunnar eru dularfull óféti og álfaverur uppi um alla veggi. Í hinum björtu sýningarrýmum safnsins hefur óvænt verið skellt upp sýningu á frummyndum listakonunnar Rúnu K. Tetzschner við ævintýri hennar um ófétin.

Rúna gaf út bók um ævintýraveröld ófétanna og hafa þau vakið lukku meðal lesenda. Óféti þessi voru eitt sinn blómálfar en hafa ekki lengur vængi heldur krækitær.

Hin fjörugu óféti úr ævintýraheimi Rúnu búa í risablómum og flögra um himinblámann á fiðrildum. Ófétin eru agnarsmá, yndisleg og hrekkjótt. Þau gullinhærðu og svarthærðu eru bara alltaf að rífast og slást og berjast því þeim finnst hin svo skrýtin, með svona ólíkan háralit.

Listakonan hefur að undanförnu dvalið í listamannahúsinu Varmahlíð í boði Hveragerðisbæjar þar sem hún skrifar framhaldssögu um ófétin og var efnt til sýningarinnar í tilefni af því. Sýningin stendur til 9. nóvember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×