Skoðun

Skiptum um áhöfn

RíkisstjórnirEitt brýnasta verkefni í íslensku samfélagi er að snúið verði af braut misskiptingar og ójafnaðar. Það verður ekki gert nema skipt verði um áhöfn í stjórnarráðinu og ríkisstjórn okkar jafnaðarmanna taki við. Mörgum ofbýður valdahroki ráðamanna og markaðsgræðgin sem sífellt er að auka á misskiptingu. Blind markaðshyggja - án þess að stoðir velferðarkerfisins séu styrktar um leið og stjórntækjum ríkisvaldsins beitt til jöfnunar í þjóðfélaginu - hefur leitt til gífurlegrar eigna- og tekjutilfærslu. Hvar sem litið er má sjá ójöfnuðinn og æpandi dæmi um að öryggisnet velferðarkerfisins er brostið og þetta hefur bitnað harkalega á lífeyrisþegum, barnafjölskyldum og tekjulágu fólki.

Forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar jafnaðarmanna verður að bæta kjör lífeyrisþega, bæði með því að hækka lífeyri og tryggja að atvinnu- og lífeyristekjur skerði ekki greiðslur almannatrygginga. Einnig hef ég lagt til að lífeyrisgreiðslur beri ekki hærri skatt en fjármagnstekjur. Ekki er síður brýnt að endurskipuleggja skattkerfið og lækka skattbyrði fólks sem sætt hefur skattahækkunum í tíð núverandi ríkisstjórnar. Skattar um níutíu prósent skattgreiðenda hafa hækkað - þ.e. allra nema þeirra sem mest efnin hafa. Barnabætur, sem orðnar eru að láglaunabótum, verður að hækka og bæta þarf stöðu ungbarnafjölskyldna með lengra fæðingarorlofi og auknum greiðslum til foreldra langveikra barna. Markviss framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að ná fram launajafnrétti kynjanna á sömuleiðis að vera forgangsverkefni í nýrri ríkisstjórn jafnaðarmanna.

Í yfirstandandi prófkjöri býð ég mig aftur fram til forystu, í 2.-3. sæti, en 2. sæti listans er leiðtogasætið í öðru Reykjavíkurkjördæmanna. Ég hvet þig til að hafa áhrif með því að taka þátt í prófkjörinu og gera það sem glæsilegast. Mér þætti afar vænt um stuðning þinn til að vera áfram í forystusveit Samfylkingarinnar. Reynsla mín og þekking á löggjafarstarfi og stjórnsýslunni mun nýtast vel í þeirri baráttu sem framundan er.

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×