Viðskipti innlent

Merrill Lynch gerir upp á milli bankanna

Merrill Lynch segir Landsbankann núna eftirlætisbanka sinn á Íslandi í nýrri greiningu á íslenska bankakerfinu.

Ástæða þess er að Merrill Lynch telur Landsbankann síst áhættusækinn í rekstri sínum og gerir athugasemdir við aðkomu Glitnis að kaupum Baugs Group á House of Fraser og sölutryggingunni á hlutabréfum Icelandair. Þá er hnýtt í kaup Kaupþings banka á 7,8 prósenta hlut í norska tryggingafélaginu Storebrand og aðkomu bankans að kaupum John Hargreaves á Matalan.

„Færslur sem þessar teljum við nýbreytni hjá Glitni,“ segir í greiningu Merrill Lynch og rekur aukna áhættusækni bankanna til árangurs þeirra við að sækja sér fé með skuldabréfaútgáfu utan Evrópu.

Þó kveður við nokkuð jákvæðari tón í umfjölluninni um íslensku bankana en áður. Þannig segir Merrill Lynch að fleiri ákjósanlegir fjárfestingarkostir séu til við hlið íslensku bankanna, en kveðst ekki afhuga fjárfestingum í þeim til lengri tíma.

Merrill Lynch dregur þá ályktun af hlutafjáraukningu Kaupþings að til standi kaup á erlendum banka. Eins er talið líklegt að Glitnir færi frekar út kvíarnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×