Menning

Biðja vegfarendur að mála ást

Biður íbúa í tólf borgum að mála ástina á striga.
Biður íbúa í tólf borgum að mála ástina á striga. MYND/Heiða

Þeir Davíð Óskar Ólafsson, Hreinn Beck og Árni Filippusson vinna nú að verkefni sem þeir kalla Painting Love, ásamt Dananum Bjarke von Koning. „Við förum til tólf borga, stillum upp trönum og striga og biðjum vegfarendur um að mála ást," útskýrði Davíð.

Hugmyndin er sprottin úr ástarsorg Bjarke. „Við þekkjumst frá því að við vorum saman í kvikmyndaskóla í Kaupmannahöfn, og þróuðum hugmyndina í sameiningu. Ætlunin var að búa til dagatal, og selja svo myndirnar tólf á uppboði til styrktar Lækna án landamæra. Svo tökum við upp og erum með ljósmyndara á svæðinu," sagði Davíð, en þeir íhuga nú að gefa einnig út bók.

„Það er eins og við náum einhvern veginn til fólks í gegnum þetta. Það var til dæmis stelpa í Kaupmannahöfn sem málaði hauskúpu á strigann. Bjarke spurði hana út í það, og þá brotnaði hún saman og sagði frá því að hún hefði nýlega misst fyrstu ástina sína úr krabbameini. Þess vegna sá hún ástina í þessu ljósi," sagði Davíð.

Þeir félagar eru nú hálfnaðir með verkefnið, en á mánudag verða þeir staddir í Smáralindinni þar sem vegfarendum gefst kostur á að mála ástina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×