Innlent

Uppbygging á undan áætlun

Hestamenn í Gusti fá nýtt svæði fyrir starfsemina í Vatnsendalandinu.
Hestamenn í Gusti fá nýtt svæði fyrir starfsemina í Vatnsendalandinu. MYND/Bjarnleifur Bjarnleifsson

Bæjarstjórn Kópavogs ræðir í dag fyrirhugað eignarnám bæjarins á 863 hektara landi úr Vatnsendajörðinni.

Að því er segir í greinargerð bæjarlögmanns hefur eftirspurn eftir lóðum í Vatnsenda verið mikil og uppbyggingin verið langt á undan áætlunum. Geri megi ráð fyrir að íbúðarbyggð þróist áfram á þessu svæði: „Kópavogsbær þarf á frekara byggingarlandi að halda og svæðum til að tryggja fullnægjandi þjónustu við byggðina.“

Bæjarlögmaður segir Kópavogsbæ hafa skuldbundið sig til að útvega Hestamannafélaginu Gusti nýtt svæði í stað þess sem félagið hefur nú en verður tekið til annarra nota. Unnið sé að deiliskipulagi fyrir hesthúsabyggð á Vatnsendasvæðinu. Einnig sé gert ráð fyrir skógrækt á svæðinu og þar sé framtíðarvatnsöflunarstaður bæjarins.

Eins og fram hefur komið í Fréttablaðinu getur bærinn ekki keypt land af eiganda Vatnsendajarðarinnar vegna kvaða í erfðaskrá. Til að komast fram hjá því er farin sú leið að taka landið eignarnámi. Drög að samningi um verð munu vera tilbúin en ekki hefur enn verið greint frá innihaldinu. Eins og áður hefur verið gert mun ætlunin vera sú að greiða eiganda landsins, Þorsteini Hjaltested, hvort tveggja með byggingarrétti og reiðufé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×