Erlent

Flutti tíu farþega á hjólinu sínu

Allahabad Þarna reynir heldur betur á hjólreiðakappann sem tók að sér að flytja hvorki meira né minna en tíu farþega í þessari ferð, móður og níu börn hennar, í gærmorgun.
Allahabad Þarna reynir heldur betur á hjólreiðakappann sem tók að sér að flytja hvorki meira né minna en tíu farþega í þessari ferð, móður og níu börn hennar, í gærmorgun. MYND/AP

Víða í Asíu er algengt að fólk ferðist styttri vegalengdir með þríhjólavögnum, svonefnum rikshaw. Þessi ferðamáti hefur að mestu tekið við af handvögnum sem hlaupa þurfti með á tveimur jafnfljótum.

Myndin hér á síðunni er tekin snemma í gærmorgun í borginni Allahabad norðan til á Indlandi, í ríkinu Uttar Pradesh. Íbúar í Uttar Pradesh eru 175 milljónir, nærri fimmtungur allra íbúa Indlands og er fjölmennasta ríki Indlands. Uttar Pradesh er einnig fjölmennasta stjórnareining innan ríkis í heiminum.

Enski rithöfundurinn Rudyard Kipling bjó um tíma í Allahabad og borgin er reyndar frægust á Indlandi fyrir fjölmarga virta indverska rithöfunda sem þaðan eru – þótt þeir séu kannski lítt þekktir á Vesturlöndum.

Rúmlega milljón íbúar eru í Allahabad, en nafn borgarinnar þýðir „staður guðs“. Það var keisarinn Akbar sem gaf borginni nafn árið 1583, og hafði þá reyndar í huga guð þeirra trúarbragða sem hann hafði sjálfur stofnað.

Frekar kalt var í Allahabad í gærmorgun. Vetur er að skella þar á um þessar mundir. Ekki er vitað á hvaða ferð þessi níu barna móðir var í gær þegar myndin var tekin, en víst er að knapi hjólhestsins þurfti að hafa sig allan við þegar hann steig pedalana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×