Erlent

Viðræður um varnarsamstarf

Valgerður Sverrisdóttir hitti í Ríga ráðamenn næstu grannríkja Íslands í NATO. Síðdegis í gær hélt hún í heimsókn til Litháens.
Valgerður Sverrisdóttir hitti í Ríga ráðamenn næstu grannríkja Íslands í NATO. Síðdegis í gær hélt hún í heimsókn til Litháens.

 Breytt staða varnarmála Íslands eftir brottför varnarliðsins er einnig úrlausnarefni NATO og af Íslands hálfu verður málið borið upp í Norður-Atlantshafsráðinu, æðstu stofnun bandalagsins, á næstu vikum. Þetta sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra á leiðtogafundi NATO sem lauk í Ríga í Lettlandi í gær.

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra hitti á fundinum ráðherra frá Noregi, Danmörku, Bretlandi og Kanada og átti við þá viðræður um hugsanlega aukna aðkomu þessara næstu grannþjóða Íslendinga að því að tryggja öryggi og varnir Íslands.

Á fundi Valgerðar með norskum starfsbróður hennar, Jonas Gahr Störe, var ákveðið að embættismenn landanna myndu halda áfram viðræðum um aukið öryggis- og varnarsamstarf þjóðanna á Íslandi um miðjan desember. Jafnframt myndu fulltrúar norskra stjórnvalda kynna sér aðstæður á hinu nýja öryggissvæði á Keflavíkurflugvelli, sem íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að þjóni þar áfram landvarnahlutverki.

Valgerður og Ulrik Federspiel, ráðuneytisstjóri danska utanríkisráðuneytisins, urðu líka ásátt um að danskir og íslenskir embættismenn myndu hittast á næstu vikum til að ræða möguleikana á efldu samstarfi á þessu sviði.

Utanríkisráðherra ræddi einnig við breska Evrópumálaráðherrann Geoff Hoon og kanadíska utanríkisráðherrann Peter Gordon MacKay. Þeir lýstu áhuga á að koma til Íslands bráðlega til viðræðna um öryggis- og varnarmál í Norðurhöfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×