Erlent

Erdogan æfur vegna frestunar

Páfi staddur við hús í Efesus á Tyrklandi þar sem María mey á að hafa búið síðustu æviárin.
Páfi staddur við hús í Efesus á Tyrklandi þar sem María mey á að hafa búið síðustu æviárin. MYND/AP

Benedikt sextándi páfi lýsti sig í gær fylgjandi því að Tyrkland fái aðild að Evrópusambandinu. Páfi er í opinberri heimsókn í Tyrklandi í þeim tilgangi að lægja reiðiöldur múslima gagnvart sér og stuðla að sáttum milli kristinna og múslima.

Hugsanleg aðild Tyrklands að Evrópusambandinu er vægast sagt umdeild, jafnt í Tyrklandi sem í aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Tyrknesk stjórnvöld hafa á síðustu árum sótt það stíft að fá aðild að Evrópusambandinu, en strandað hefur á ýmsu, nú síðast á kröfu Evrópusambandsins og Kýpur-Grikkja um að Tyrkir veiti Kýpur-Grikkjum aðgang að höfnum og flugvöllum í Tyrklandi.

Í gær lagði Olli Rehn, sem fer með stækkunarmál ESB í framkvæmdastjórn sambandsins, að aðildarviðræðum við Tyrkland verði að hluta frestað vegna deilunnar, þar sem Tyrkir hafa til þessa ekki viljað veita Kýpur, sem er fullgilt aðildarríki í Evrópusambandinu, þennan aðgang.

Endanleg ákvörðun um hvort aðildarviðræðum verði frestað vegna þessarar deilu verður þó ekki tekin fyrr en á leiðtogafundi Evrópusambandsins um miðjan desember.

Recep Tayyin Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, brást í gær ókvæða við þessari tillögu Rehns. „Við látum engan troða á réttindum okkar,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×