Erlent

Hafa sagt sig úr stjórn Íraks

Jórdaníukonungur og forsætisráðherra Íraks hittust í Jórdaníu í gær, en Bush Bandaríkjaforseti hittir þá hvorn í sínu lagi.
Jórdaníukonungur og forsætisráðherra Íraks hittust í Jórdaníu í gær, en Bush Bandaríkjaforseti hittir þá hvorn í sínu lagi. MYND/AP

Fylgismenn sjíaklerksins Muqtada al-Sadrs á þingi og í ríkisstjórn Íraks hafa dregið til baka stuðning sinn við ríkisstjórn landsins. Með þessu vilja þeir mótmæla því að Nouri al-Maliki forsætisráðherra skuli fara á fund George W. Bush Bandaríkjaforseta í Jórdaníu.

Fundur þeirra Bush og al-Malikis „ögrar tilfinningum írösku þjóðarinnar og er brot á stjórnarskrárbundnum réttindum Íraka,“ að því er segir í yfirlýsingu frá þrjátíu þingmönnum og fimm ráðherrum, sem allir eru hliðhollir Sadr.

Bush hélt í gær rakleiðis frá leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Lettlandi til Jórdaníu þar sem hann á fundi bæði með al-Maliki og Abdullah Jórdaníukonungi. Aðalefni fundanna er að finna leiðir til að draga úr átökum í Írak, átökum milli sjía og súnníta sem hafa verið svo harðskeytt undanfarið að margir vilja segja að borgarastyrjöld sé skollin á í landinu.

Stuðningsmenn Sadrs hótuðu því fyrir fáeinum dögum að segja sig úr stjórn landsins láti al-Maliki, sem er sjálfur sjíi, verða af því að hitta Bush að máli.

„Írakstjórn á að semja við Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, ekki við leiðtoga þess lands sem hefur hertekið Írak,“ sagði Falih Hassan, þingmaður úr hópi Sadrs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×