Innlent

Flugdólgur barði konu sína

Karlmaður á miðjum aldri, sem látið hafði dólgslega í flugvél sem var á leiðinni til Íslands frá Kúbu á vegum ferðaskrifstofunnar Heimsferða, var skilinn eftir í Halifax í Kanada ásamt eiginkonu sinni aðfaranótt sunnudagsins. Flugvélin, sem er í eigu flugfélagsins JetX sem flýgur fyrir Heimsferðir, millilenti í Halifax til að taka eldsneyti og skipta um áhöfn.

Hjónin voru vel birg af áfengi sem þau höfðu tekið með sér inn í vélina og voru mjög drukkin. Þegar vel var liðið á flugið byrjaði maðurinn að áreita flugfreyjur og aðra farþega vélarinnar. Að sögn Tómasar Björnssonar, framkvæmdastjóra Heimsferða, höfðu farþegar sem sátu í námunda við manninn fengið sig fullsadda af hegðun mannsins og vildu fá að skipta um sæti til að forðast hann. Þegar stutt var eftir af fluginu til Halifax reyndi eiginkona mannsins að róa hann niður og tók hann þá upp á því að berja hana.

Í Halifax ákvað flugstjóri vélarinnar að skilja hann þar eftir því ekki væri forsvaranlegt að hafa manninn áfram um borð í vélinni. Flugvélin hélt áfram ferð sinni án hjónanna og lenti á Keflavíkurflugvelli í gærmorgun.

Eftir hádegi í gær voru hjónin ennþá í Halifax en verið var að vinna í því að koma þeim í flugvél áleiðis til Íslands, að sögn Tómasar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×