Viðskipti innlent

Íslandsbanki kaupir 50,1% í Union Group

Íslandsbanki hf. hefur skrifað undir samning um kaup á 50,1 prósenta hlut í Union Group, sem er stærsti og leiðandi aðili í sölu, ráðgjöf og samsetningu viðskipta með atvinnuhúsnæði í Noregi. Kaupin styrkja frekar stöðu Íslandsbanka í viðskiptum með atvinnuhúsnæði, fjármögnun slíkra viðskipta með sölu til þriðja aðila, auk fyrirtækjaráðgjafar og sjóðarekstrar á sviði atvinnuhúsnæðis í Noregi.

Union Group útvegar jafnframt fjármögnun frá þriðja aðila og rekur sjóði, með áherslu á atvinnuhúsnæði og fyrirtækjaráðgjöf á sviði fasteignaviðskipta. Rekstrartekjur Union Group voru um 160 milljónir norskra kóna árið 2005 og nam hagnaður fyrir skatta og hlutdeild minnihluta 90 milljónum norskra króna.

Union Group samanstendur af Union Næringsmegling AS, Union Corporate ASA, Union Eiendomskapital AS, Union Real Estate AS og Union Marine Finance AS. Íslandsbanki hefur rétt til að kaupa þá hluti sem eftir standa á fimm ára tímabili, og eigendur minnihlutans í Union hafa rétt til að selja þá hluti sem eftir standa til Íslandsbanka á sama tímabili, að því er segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Í tilkynningunni er haft eftir Frank O. Reite, framkvæmdastjóra Íslandsbanka í Noregi, að bankinn hafi áform um að styrkja frekar fyrirtækjaráðgjöf bankans í Noregi.

Báðir aðilar hafa samþykkt að kaupverð á Union Group verði ekki gefið upp en kaupin eru háð samþykki yfirvalda í Noregi og á Íslandi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×