Körfubolti

Wade ómeiddur en Riley æfur

Pat Riley vill með engu móti missa sinn besta leikmann í meiðsli.
Pat Riley vill með engu móti missa sinn besta leikmann í meiðsli. MYND/Getty

Dwayne Wade, stjörnuleikmaður Miami í NBA-deildinni í körfubolta, er ekki alvarlega meiddur á hendi eftir að hafa lent í samstuði við Kirk Hinrich hjá Chicago í viðureign liðanna í fyrradag. Þetta leiddu niðurstöður röngtenmyndatöku í ljós. Pat Reily, þjálfari Miami, er þó allt annað en sáttur við framkomu Hinrich.

Wade er sagður aumur í hendinni en kemur sterklega til greina í leikmannahóp liðsins sem mætir New Jersey í nótt. Atvikið gegn Chicago átti sér stað í miðjum fyrsta leikhluta og sagði Riley eftir leikinn að Hinrich hefði viljandi slegið í hendi Wade. Chicago sigraði leikinn, 109-103.

“Hinrich togaði í hendina á honum. Hann gerir það alltaf,” sagði hundfúll Riley. “Hinrich er vanur að dekka Wade í þessum leikjum og alltaf þegar myndavélunum er beint eitthvað annað tekur hann upp á einhverjum bolabrögðum gegn Wade – togar í treyjuna hans, stígur á tærnar eða lemur í hendurnar á honum. Það er óþolandi,” sagði Riley.

Hinrich svaraði ásökum Riley á þann veg að hann hefði engan tíma til að hugsa um hvað þjálfara annars liðs finnst um leikstíl sinn. “Ég verð bara að hugsa um sjálfan mig. Hann ætti að gera það líka, einbeita sér að því að bæta leik Miami. Hann hefur nú oft verið betri.”

Wade hefur verið langbesti leikmaður Miami á tímabilinu, skorað 27,5 stig og gefið 7,8 stoðsendingar að meðaltali það sem af er leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×