Enski boltinn

Fjórar milljónir ljósára í Evrópusætið

Martin O´Neill hefur fullan hug á að koma Villa aftur í sviðsljósið í Evrópukeppninni - en segir takmarkið fjórar milljónir ljósára í burtu
Martin O´Neill hefur fullan hug á að koma Villa aftur í sviðsljósið í Evrópukeppninni - en segir takmarkið fjórar milljónir ljósára í burtu NordicPhotos/GettyImages

Martin O´Neill segir að alla hjá Aston Villa dreymi vissulega um að koma liðinu í Evrópukeppnina á ný, þar sem liðið hefur ekki látið að sér kveða síðan árið 1982 þegar liðið vann sigur í Evrópukeppninni. O´Neill er þó hógvær á möguleika liðsins og segir Evrópusætið fjórar milljónir ljósára í burtu á þessum tímapunkti.

Aston Villa hefur byrjað ágætlega í deildarkeppninni í ár og hefur ráðning O´Neill og sala félagsins til ameríska milljarðamæringsins Randy Lerner vakið bjartsýni í herbúðum þess. O´Neill varð sjálfur Evrópumeistari með Nottingham Forest sem leikmaður og stýrði liði Glasgow Celtic í meistaradeildinni í nokkur ár áður en hann kom til Villa. Hann vill ólmur upplifa Evrópustemminguna á ný - að þessu sinni í Birmingham.

"Þessi kvöld eru ótrúleg. Það jafnast ekkert á við heimaleiki í miðri viku í meistaradeildinni. Hávaðinn var rosalegur hjá Celtic og ég hef ekki heyrt aðra eins stemmingu oft á ferlinum. Ég hef líka talað við menn hérna sem upplifðu stemminguna hérna hjá félaginu árið 1982. Það væri frábært að færa fólkinu hérna eitthvað á borð við þetta aftur - það er ekki nema fjórar milljónir ljósára í burtu í augnablikinu," sagði O´Neill glaðbeittur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×