Alex Ferguson á von á stórleik frá þeim Cristiano Ronaldo og Wayne Rooney í meistaradeildinni í kvöld þegar Manchester United sækir Benfica heim, en leikurinn verður sýndur beint á Sýn og hefst útsending klukkan 18:30.
Wayne Rooney hefur enn ekki fundið sig það sem af er tímabili eftir erfið meiðsli í sumar og hefur raunar ekki skorað mark fyrir United í meistaradeildinni síðan árið 2004 þegar hann skoraði þrennu í sínum fyrsta Evrópuleik í 6-2 sigri á Fenerbahce.
Cristiano Ronaldo á heldur ekki góðar minningar frá því að spila með United í heimalandi sínu, því hann var dæmdur í leikbann fyrir að senda stuðningsmönnum Benfica fingurinn þegar liðin áttust við í meistaradeildinni á síðustu leiktíð.
"Ronaldo er klár leikmaður og veit um hvað málið snýst, á meðan það eina sem Rooney þarf er leikir til að komast aftur í sitt besta form. Ég hef engar áhyggjur af Wayne, hann átti góða innkomu í deildinni á dögunum og er óðum að komast í gott form. Hvað Ronaldo varðar, hef ég ekki talað sérstaklega við hann fyrir leikinn. Hann veit hvað klukkan slær í þessum efnum og hefur af öðrum ólöstuðum verið okkar besti maður það sem af er leiktíðinni," sagði Ferguson.