Fótbolti

Sjálfstraust leikmanna vex stöðugt

Arsene Wenger
Arsene Wenger NordicPhotos/GettyImages

Arsene Wenger segir að 2-0 sigur Arsenal á Porto í kvöld beri þess merki að sjálfstraust leikmanna sé að vaxa til muna og að liðið sé nú að finna taktinn eftir fremur dapra byrjun á leiktíðinni.

"Liðið er að verða sterkara og sterkara. Við vorum ferskir í kvöld og sífellt ógnandi við mark andstæðinganna, svo ég sé tær batamerki á liðinu og tel það eiga mikið inni," sagði Wenger og sló á létta strengi þegar hann var spurður út í þá staðreynd að Thierry Henry hefði nú skorað mark með skalla í tveimur leikjum í röð - en það gerist hreint ekki á hverjum degi.

"Thierry sannaði að hann getur líka skorað með skalla, en ég er alltaf að læra eitthvað nýtt um leikmenn mína," sagði hann, en bætti við á alvarlegri nótum; "Hann gerir miklu meira en að skora mörk, en að skora 50 mörk í Evrópukeppni er á fárra færi og ég er ekki viss um að margir aðrir en hann hafi náð því takmarki," sagði Wenger.

Það eina neikvæða við leik Arsenal í kvöld var sú staðreynd að franski landsliðsmaðurinn William Gallas þurfti að fara meiddur af leikvelli. Gallas er meiddur á læri, en Wenger segist halda að meiðslin séu ekki alvarleg - þó vissulega gætu þau sett strik í reikninginn fyrir hann í næstu landsleikjatörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×