Sport

Menn misstu einbeitinguna

Þau voru þung skrefin hjá Eyjólfi Sverrissyni landsliðsþjálfara eftir leikinn enda var tapið gegn Lettum sárt og sigurinn allt of stór.

"Við byrjum mjög vel og fengum tvo mjög góð færi. Þá er eins og menn haldi að hlutirnir komi af sjálfu sér og því misstu menn einbeitinguna í smá tíma. Þá gerum við tvö afrifarík mistök og þeir nýttu sér það til fullnustu. Þá kom mikið fát á liðið og menn urðu óöruggir,"sagði Eyjólfur sem var þrátt fyrir allt nokkuð sáttur með leik sinna manna.

"Svo kemur klafsmark og þá var róðurinn erfiður. Við fengum tækifæri en náðum ekki að skora mark sem hefði verið þýðingarmikið upp á að geta byrjað síðari hálfleikinn af krafti sem við reyndar gerðum. Við náðum því miður ekki að nýta færin og þetta er í raun einn furðulegasti leikur sem ég hef tekið þátt í," sagði Eyjólfur.

"Við vorum að sleppa í gegn í byrjun og héldum þeim í skefjum því þeir voru ekkert að skapa af færum. Eftir að markið kemur þá leystist leikurinn aðeins upp og annað markið er hlutur sem gerist í leikjum. Ég mun ekki benda á neinn enda töpum við sem lið og sigrum sem lið," sagði Eyjólfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×