Sport

Ástralar eru vanmetnir

Buffon er ekki búinn að gleyma því þegar Hiddink sló þá út úr keppninni fyrir fjórum árum
Buffon er ekki búinn að gleyma því þegar Hiddink sló þá út úr keppninni fyrir fjórum árum

Markvörðurinn Gianluigi Buffon hjá ítalska landsliðinu segir að ástralska landsliðið sé vanmetið á HM og eigi eftir að reynast mjög erfiður andstæðingur í þegar liðin mætast í 16-liða úrslitunum á mánudag. Þjálfari Ástrala er sem kunnugt er Hollendingurinn Guus Hiddink, en undir hans stjórn náði lið Suður-Kóreu að slá það ítalska út í keppninni fyrir fjórum árum.

"Þetta verður mjög erfiður leikur þó flestir ætlist til þess að við vinnum auðveldlega. Ástralar eru líkamlega sterkir, ákveðnir og hafa fulla trú á því sem þeir eru að gera. Þeir eru búnir að skora fimm mörk í þremur leikjum og því verðum við sannarlega að vera tilbúnir þegar við mætum þeim, því þeir hafa nákvæmlega engu að tapa. Við munum ekki gera sömu mistök og við gerðum í leiknum gegn Bandaríkjamönnum, því við vitum að í næsta leik er ekkert pláss fyrir mistök," sagði Buffon og bætti við að hann bæri mikla virðingu fyrir þjálfara ástralska liðsins, sem sló það ítalska út úr keppninni fyrir fjórum árum.

"Hiddink er frábær þjálfari og tölurnar tala sínu máli hjá honum. Hann hefur náð ótrúlegum árangri með lið sem ekki hafa verið talin sterk á pappírunum. Það hefur þó margt breyst í liði okkar frá því fyrir fjórum árum og með fullri virðingu fyrir andstæðingum okkar, ætlum við okkur í 8-liða úrslit," sagði Buffon.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×