Erlent

Bush aldrei óvinsælli

Bandarísk stjórnvöld verja sem fyrr meðferð sína á grunuðum hryðjuverkamönnum sem þau hafa í sínu haldi en vísa ásökunum um pyntingar á bug. Aðeins þriðji hver Bandaríkjamaður styður Bush forseta ef marka má nýjustu skoðanakannanir.

Nefnd Sameinuðu þjóðanna gegn pyntingum yfirheyrir ríkisstjórnir heims með reglulegu millibili um meðferð þeirra á föngum í þeirra vörslu og í morgun var komið að þeirri bandarísku, í fyrsta sinn síðan svonefnt stríð gegn hryðjuverkum hófst árið 2001. Ásakanir um leynifangelsi og fangaflug þeim tengdum var á meðal þess sem bar á góma í yfirheyrslunum, svo og aðbúnaður fanga í Guantanamo-fangabúðunum illræmdu á Kúbu. Erindreki Bandaríkjastjórnar sagði margt af því sem henni væri gefið að sök vera algera fjarstæðu enda styddu bandarísk stjórnvöld bann við pyntingum heilshguar. Hann viðurkenndi að 150 fangar sem taldir væru sérlega hættulegir hefðu verið fluttir á milli landa en enginn þó seldur í hendur stjórnvalda sem beita misþyrmingum. Hins vegar var á honum að skilja að ekki væru allir jafnir fyrir lögunum, ýmis ákvæði Genfarsáttmálans ættu ekki við talibana og liðsmenn al-Kaída.

Bush forseti hefur í ýmis horn að líta þessa dagana því ný skoðanakönnun sem AP-fréttastofan birti í dag bendir til að óvinsældir hans hafi aldrei verið meiri. Einungis þriðji hver aðspurðra kvaðst ánægður með frammistöðu forsetans, samanborið við 36 prósent í síðasta mánuði. Ástæðurnar fyrir óvinsældunum eru sagðar hátt eldsneytisverð og Íraksstríðið. Þingkosningar verða haldnar í Bandaríkjunum í haust og því ljóst að repúblikanar verða að herða róðurinn ætli þeir ekki að missa þar völdin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×