Viðskipti innlent

Þrír bankar hækka vexti

Seðlabankinn.
Seðlabankinn.

Landsbankinn, KB banki og sparisjóðirnir hafa hækkað vexti sína í kjölfar þess að Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 50 punkta í morgun.

Landsbankinn og KB banki ákváðu báðir að hækka vexti á óverðtryggðum innlánum og útlánum um allt að 0,5 prósentustig en hækkun sparisjóðanna nemur 0,40 - 0,50 prósentustigum. Allar vaxtabreytingarnar taka gildi frá og með 21. ágúst næstkomandi eða á mánudag í næstu viku.

Í hálffimmfréttum greiningardeildar KB banka í dag segir að hækkunin sé í takt við væntingar markaðsaðila. Þó megi greina nokkuð breyttan tón í framsögu Seðlabankans, að mati greiningardeildarinnar. Sé þetta í fyrsta skipti í langan tíma sem bankinn tali ekki um versnandi verðbólguhorfur frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi heldur líti staðan betur út nú.

Þá segir deildin að minni eftirspurn samhliða styrkingu gengi krónunnar á síðustu vikum hefur dregið úr verðbólguþrýstingi í hagkerfinu. KB banki spáir því að verðbólgan ná hámarki á þriðja ársfjórðungi í kringum 9 prósent og haldast há fram á annan ársfjórðung 2007 þegar hún tekur að lækka nokkuð hratt.

Næsti vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans er í september og býst greiningardeildin við því að bankinn muni hækka vexti á ný um 50 punkta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×