John J. Brennan, forstjóri Vanguard, hefur stundum verið nefndur sem einn af áhrifamestu mönnum á bandarískum fjármálamarkaði. Sjálfur gefur hann lítið fyrir sín persónulegu völd. Segir hann þó að þar sem Vanguard hafi gríðarlegt fjármagn í eignastýringu, yfir 950 milljarða bandaríkjadala, hafi fyrirtækið eðli málsins samkvæmt nokkuð mikil áhrif.
Vanguard er að öllu leyti í eigu fjárfesta í sjóðum fyrirtækisins, sem þýðir að rekstrarhagnaður rennur beint til sjóðsbréfaeigenda. Þetta rekstrarform er einsdæmi meðal eignastýringarfélaga í Bandaríkjunum og þakkar Brennan því mikinn vöxt fyrirtækisins undanfarin ár. Sérstök áhersla er góða þjónustu og lágan kostnað, sem hefur gengið vel eftir en á meðan kostnaður sjóða í Bandaríkjunum hefur farið hækkandi hefur kostnaður hjá Vanguard farið lækkandi.
Vísitölusjóðir lykillinn að árangriRekstur vísitölusjóða er kjarnahæfni Vanguard og af mörgum talinn lykillinn að árangri félagsins. Vísitölusjóðir beita hlutlausri eignastýringu sem þýðir að sjóðirnir eiga hlutabréf í því sem næst sömu hlutföllum og eru í þeirri vísitölu sem miðað er við. Rekstur vísitölusjóða fellur vel að hugmyndum Vanguard um að fjárfesta til lengri tíma, bæði sem fyrirtæki og eins í fjárfestingum. Fyrirtækið býður líka aðra fjárfestingasjóði en hefur þá leitað til annarra fyrirtækja með að reka þá. Hvernig svo sem sjóðirnir eru upp byggðir segir Brennan þá alla rekna á mjög agaðan hátt, enda sé mikilvægt að leita eftir jafnvægi og dreifingu í fjárfestingum til að hafa stjórn á áhættu.
„Ein algengustu mistök við fjárfestingar er að elta tískubylgjur, sem er ekki góð leið til að græða peninga. Við hugsum til lengri tíma, oft til fimm eða tíu ára, ekki í mánuðum eða jafnvel árum. Markaðir rísa og falla, það er bara þannig. Það eru fjölmargir hlutabréfamarkaðir í heiminum þar sem enginn hefur grætt neitt undanfarin sex ár og þar vill enginn fjárfesta í hlutabréfum núna. Annars staðar, eins og hér, hafa markaðir verið á blússandi siglingu og skyndilega vilja allir fjárfesta í hlutabréfum. Ein af ástæðunum fyrir því að við erum virt fyrirtæki er að þegar þrengir að segjum við „þetta verður ekki alltaf svona" en þegar markaðir eru á siglingu segjum við það sama.