Fótbolti

Bayern ætlar að versla í sumar

NordicPhotos/GettyImages

Karl-Heinz Rummenigge, stjórnarformaður Bayern Munchen, segir félagið tilbúið að eyða háum fjárhæðum til leikmannakaupa í sumar og á von á að heimsklassa leikmaður verði keyptur til félagsins fyrir allt að 30 milljónir evra.

Bayern hefur unnið deild og bikar í Þýskalandi tvö ár í röð, en gengi liðsins það sem af er leiktíðinni í ár hefur ekki lofað góðu. Bayern er aðeins í fjórða sæti úrvalsdeildarinnar í dag og Rummenigge viðurkennir að samkeppnin sé að verða harðari í Þýskalandi.

"Það er orðið enn erfiðara en áður að vinna þýska meistaratitilinn. Stuttgart, Bremen og Schalke eru mjög sterk lið sem eru í sókn og við verðum að hugsa til þess að styrkja okkur með leikmannakaupum. Við finnum ekki heimsklassa leikmenn á lausu í janúar og því verðum við að bíða með stórverslanir þangað til í sumar. Við erum hinsvegar tilbúnir að kaupa stórstjörnu þá og stjórnin veit af því. Við verðum að vera tilbúnir að eyða allt að 30 milljón evrum í góðan leikmann, en þýska deildin er orðin það sterk að slíkir leikmenn geta vel hugsað sér að koma hingað," sagði Rummenigge.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×