Sir Alex Ferguson segir að sínir menn í Manchester United verði að nýta færi sín til hins ítrasta í leiknum við Benfica í Meistaradeildinni í kvöld ef þeir ætli sér að ná hagstæðum úrslitum. Enska liðinu nægir stig til að komast áfram, en liðið hefur átt það til að fara illa með færi sín í keppninni til þessa og það hefur kostað liðið að mati knattspyrnustjórans. Leikurinn verður sýndur beint á Sýn klukkan 19:30.
"Þetta verður ekki auðveldur leikur, en svo framarlega sem menn klára færin sín, verður þetta allt í lagi. Við verðum að vera einbeittir fyrir framan mark þeirra og klára leikinn ef við komumst í aðstöðu til þess. Þetta er allt of mikilvægur leikur til að vera að draga lappirnar og gera mistök," sagði Ferguson, en United féll einmitt úr keppni í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð eftir tap fyrir Benfica í lokaleiknum.