Innlent

Heimilin gætu sparað 130.000

Hallgrímur Snorrason 
Formaður matvælaverðsnefndar forsætisráðherra.
Hallgrímur Snorrason Formaður matvælaverðsnefndar forsætisráðherra. MYND/Hrönn

Hægt er að lækka matarreikning heimilanna um 130 þúsund krónur á ári og færa matvöruverð undir meðaltal Evrópusambandsríkjanna.

Útreikningar nefndar forsætisráðherra benda til að með afnámi vörugjalds, niðurfellingu tolla, samræmingu virðisaukaskatts og afnámi tollverndar af búvöru sé slíku marki náð. Nefndinni var ætlað að fjalla um hátt matvælaverð og gera tillögur um lækkun þess en sökum ágreinings leggur hún ekki fram beinar tillögur til aðgerða.

Nefndarformaðurinn, Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri, hefur á hinn bóginn skilað forsætisráðherra skýrslu þar sem störf hennar og viðfangsefni eru rakin.

Í skýrslunni kemur fram að afnám vörugjalds, niðurfelling tolla, samræming virðisaukaskatts og lækkun virðisaukaskatts af veitingaþjónustu myndi þýða fimmtíu þúsund króna lækkun matarreiknings heimilanna á ári. Fullt afnám tollverndar af búvöru myndi svo lækka þann sama reikning um rúmar áttatíu þúsund krónur til viðbótar. Þessar aðgerðir myndu ekki hafa afgerandi áhrif á afkomu ríkissjóðs, enda yrði tekjutapið ekki nema rúmlega 1,7 milljarðar króna. Er þá tekið tillit til veltuaukningar vegna skattalækkana.

Í skýrslunni er fundið að skatta- og tollakerfi matvara og á það bent að virðisaukaskattsþrepin séu tvö, að sumar vörur beri vörugjöld en aðrar ekki og að auki séu vörugjöldin mishá. Þá leggist tollur á sumar vörur sem aftur er mishár. Í ofanálag fylgi kerfi undanþága. Heilt yfir sé kerfið því flókið og ógagnsætt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×