Þetta kemur fram í frétt mbl.is um málið. Þar segir Bjarni að Jón hafi ekki valdheimildir sem aðstoðarmaður til þess að leiða nein mál til lykta og hann muni ekki koma nálægt meðferð hvalamálsins, þ.e. veitingu veiðileyfis, í matvælaráðuneytinu.
Þá segir Bjarni einnig að hann hafi rætt við ráðuneytisstjóra „fyrir nokkru síðan“ að það myndi ekki reyna á aðkomu Jóns í meðferð málsins.
Umsókn Hvals hf. um leyfi til hvalveiða liggur inni í ráðuneytinu. Jón lýsti því yfir þegar hann tók við stöðu sinni í matvælaráðuneytinu að það væri mál sem hann ætlaði sér að skoða.
Sagði Bjarna og Jón hafa gert samkomulag
Yfirlýsing Bjarna er viðbragð við umfjöllun Heimildarinnar upp úr leynilegum upptökum sem teknar voru af samtölum sonar Jóns, Gunnars Bergmanns, og manns sem þóttist vera svissneskur fjárfestir.
Meðal þess sem kom fram í upptökunum var að Jón hefði samþykkt að taka fimmta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í skiptum fyrir það að komast í aðstöðu til að geta veitt Hval hf. hvalveiðileyfi fyrir Alþingiskosningar.
Einnig á Gunnar að hafa sagt í upptökunum að tvær aðrar umsóknir lægju fyrir í ráðuneytinu frá aðilum sem hyggjast veiða hrefnur. Gunnar hafi sagt að til stæði að tryggja útgáfu leyfa til allra þriggja umsækjenda og taldi hann að það myndi takast fyrir kosningar.
„Þetta er eins og ef þú sækir um ökuskírteini“
Daginn sem Jón var skipaður fulltrúi ráðherrra í matvælaráðuneytinu, 25. október, sagði hann í viðtali á Bylgjunni að hvalveiðar væru eitt þeirra mála sem hann ætlaði sér að skoða í ráðuneytinu. Jafnframt sagði hann að ráðherra bæri skylda til að afgreiða slíkar umsóknir.
„Ef það er sótt um þetta er ákveðin lagaleg skylda, lögboðin skylda á ráðherra að afgreiða þá umsókn. Það eru bara lög í gildi. Þetta er eins og ef þú sækir um ökuskírteini. Það getur ekki einhver ráðherra ákveðið það þú eigir ekki að fá ökuskírteini,“ sagði Jón.
Jón svaraði því þó ekki beint hvort að hann ætlaði sér að leyfa hvalveiðar aftur fyrir kosningar.
Þá sakaði Jón forvera Bjarna í embætti matvælaráðherra um að hafa gengið „sóðalega“ fram í hvalveiðimálum og tók undir með spyrli að Vinstri græn væru óvinir atvinnulífsins og á móti verðmætasköpun.