Erlent

Varað við of mikilli bjartsýni

MYND/AP

Fulltrúar stjórnvalda í Súdan og stærsta uppreinsarhópsins í Darfur héraði undirrituðu friðarsamkomulag í gær. Varað er við of mikilli bjartsýni þar sem tveir uppreisnarhópar höfnuðu samkomulaginu.

Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar samningamenn munduðu pennan í gær og rituðu nafn sitt á samkomulagið. Afríkubandalagið hafði milligöngu um friðarviðræður sem hafa staðið síðustu daga í Abuja, höfuðborg Nígeríu.

Um 200 þúsund manns hafa fallið í átökum í Darfur-héraði frá því í febrúar 2003 og tvær milljónir manna þurft að yfirgefa heimili sín. Þó að fulltrúi stærsta uppreinsarhópsins hafi undirritað samkomulagið varpar það skugga á niðrustöðuna frá í gær að tveir uppreisnarhópar höfnuðu samkomulaginu og sögðu öryggi íbúa í héraðinu ekki tryggt að fullu og óvíst með bætur fyrir ættingja þeirra sem hafa fallið í átökum.

Þeir sem hafa fylgst með ástandinu í Darfur segja að uppreinsarmenn og stjórnvöld í Súdan hafi áður gengið á bak orða sinna og leggja til að fréttum gærdagsins sé tekið með fyrirvara.

Ríki Afríku-, Araba- og Evrópubandalagsins og Bandaríkjamenn styðja þetta friðarsamkomulag. Þar eru ákvæði um að uppreinsarmenn og vopnaðar sveitir hliðhollar stjórnvöldum leggi þegar niður vopn og að mörg þúsund uppreisnarmenn ganga til liðs við stjórnarherinn í Súdan. Auk þess verður friðargæslulið sent til vernda íbúum í Darfur-héraði. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, leggur áherslu á að friðargæslumenn á vegum samtakanna verði sendir.

Uppreisnarmenn fá meirihluta í stjórn Darfur-héraðs. Ekki fengu þeir þó embætti varaforseta Súdan eins og þeir sóttust eftir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×