Erlent

Blóðug átök í Basra

Til blóðugra átaka kom í borginni Basra í Írak í dag eftir að bresk herþyrla var skotin þar niður í morgun. Fregnir herma að minnst fjórir hermenn sem voru um borð hafi farist en það hefur ekki verið staðfest.

Það var í morgun sem breska herþyrlan hrapaði á íbúðarhverfi í Basra. Breski herinn hefur ekki viljað staðfesta að hún hafi verið skotin niður en erlendir miðlar hafa haft eftir lögreglu á staðnum að svo hafi verið. Þær heimildir segja að fjölmargir breskir hermenn hafi farist. Engan mun hafa sakað á jörðu niðri.

Breskir hermenn voru þegar sendir á staðinn í brynvörðum bílum til að bjarga því sem hægt var að bjarga og verja flakið. Þar höfðu fjölmargir íbúar safnast saman og þegar hemenn komu á svæðið létu þeir grjóthnullungum og molotov kokteilum rigna yfir Bretana og brynvörðu bifreiðarnar þeirra.

Basrabúum tókst að kveikja í einum bílnum með því að varpa á hann handsprengju. Bresku hermennirnir sem voru í bifreiðinni sluppu ómeiddir.

Að lokum svöruðu hermennirnir með því að skjóta af byssum sínum í loftið og reyndu með því að dreifa mannfjöldanum. Þá kom til skotbardaga milli þeirra og vopnaðra andspyrnumanna. Fimm lágu í valnum eftir þau átök þar á meðal tvö börn.

Minna hefur verið um átök í Basra samanborið við höfuðborgina Bagdad, en breski herinn hefur haft stjórn í Basra. Þar hefur þó orðið vart nokkurar spennu þar milli breskra hermanna og andspyrnumanna síðustu vikur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×