Erlent

Læknarnir björguðu Pinochet

Augusto Pinochet getur þakkað læknuð sínum það að hann tórir ennþá.
Augusto Pinochet getur þakkað læknuð sínum það að hann tórir ennþá. MYND/AP

Líf Augustos Pinochets, fyrrverandi einræðisherra í Chile, hefur hangið á bláþræði undanfarinn sólarhring en hann fékk alvarlegt hjartaáfall í nótt.

Líðan Pinochet er nú sögð stöðug en alvarleg en læknar gerðu á honum nokkurra klukkustunda langa skurðaðgerð í dag. Til marks um áhyggjur manna var honum gefið hið hinsta sakramenti fyrir aðgerðina ef vera kynni að hann dæi á skurðarborðinu. Pinochet var oddviti herforingjastjórnarinnar sem rændi völdum í Chile árið 1973 en hún ríkti allt til ársins 1990. Á þeim tíma voru yfir 3.000 manns myrtir eða látnir hverfa, eins og það var orðað. Talið er að allt að 28.000 manns hafi sætt pyntingum og misþyrmingum leynilögreglu landsins meðan á ógnarstjórninni stóð. Margsinnis hefur verið reynt að draga Pinochet fyrir dóm en hann hefur aldrei þurft að svara fyrir mannréttindabrot sín þar sem lögfræðingum hans hefur ávallt tekist að sannfæra dómara um að hann sé of veikur til að þola réttarhöld. Að undanförnu hefur hann setið í stofufangelsi í Santíagó, höfuðborg Chile. Þegar hann varð 91 árs fyrir rúmri viku gaf hann út yfirlýsingu þar sem hann sagðist taka pólitíska ábyrgð á ofbeldinu sem var framið í stjórnartíð hans. Hann hefði hins vegar einungis verið knúinn af þrá til að koma í veg fyrir að Chile liðaðist í sundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×