Sport

Atvik í leik Manchester City og Portsmouth til rannsóknar

Læknar stumra hér yfir Mendes, sem lá rotaður eftir samstuðið við Thatcher
Læknar stumra hér yfir Mendes, sem lá rotaður eftir samstuðið við Thatcher NordicPhotos/GettyImages

Enska knattspyrnusambandið og lögreglan í Manchester eru nú að rannsaka ljótt atvik sem átti sér stað í leik Manchester City og Portsmouth í ensku úrvalsdeildinni í gær, þegar Ben Thatcher, leikmaður City, rotaði Portúgalann Pedro Mendes hjá Portsmouth.

Leikmennirnir lentu í samstuði og þótti Thatcher gefa Mendes olnbogaskot með þeim afleiðingum að hann féll á auglýsingaskilti við völlinn og rotaðist. Mendes gisti á sjúkrahúsi í nótt og er enn undir eftirliti lækna. Thatcher fékk aðeins að líta gult spjald fyrir aðfarirnar og Harry Redknapp, stjóri Portsmouth, var afar óhress með framgöngu varnarmannsins.

"Ég fæ ekkert út úr því að sjá menn fara í leikbönn, en ef þetta var ekki rautt spjald, veit ég ekki hvað menn eiga að gera til að verðskulda rautt spjald - þeir þurfa ef til vill að drepa einhvern," sagði Redknapp.

Dómarinn gaf Thatcher aðeins gult spjald og því er ekki hægt að breyta því í rautt spjald eftirá, en bæði enska knattspyrnusambandið og lögregluyfirvöld í Manchester ætla að taka atvikið til nánari skoðunar vegna þess fjölda kvartana sem þeim hefur borist eftir uppákomuna í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×