Innlent

Tekur sæti á þingi í lok apríl

Guðjón Ólafur Jónsson sem tekur sæti Árna Magnússonar á þingi segist hafa orðið fyrir áfalli þegar honum varð ljóst að Árni Magnússon félagsmálaráðherra ætlaði að hætta á þingi og að hann sjálfur væri á leið á þing. Hann segir mikinn missi að Árna.

Guðjón Ólafur Jónsson hafði enga hugmynd um að hann væri að verða þingmaður þegar hann steig upp í flugvél í Skotlandi þar sem hann er við nám og flaug til Íslands til að flytja mál fyrir Hæstarétti í morgun. Hann segir tíðindin hafa komið sér mjög á óvart og raunar verið sér áfall. Hann segir mikinn missi að Árna og áfall fyrir alla Framsóknarmenn að hann hafi ákveðið að hætta.

Guðjón Ólafur er í framhaldsnámi í lögfræði í Skotlandi og hyggst ljúka því námi áður en hann sest á þing, líklega í lok apríl. Sæunn Stefánsdóttir, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, tekur sæti á Alþingi á morgun og verður þar alla vega næstu tvær vikurnar. Samhliða því hyggst hún hjálpa Siv Friðleifsdóttur heilbrigðisráðherra að setja sig inn í málaflokk sinn.

Guðjón Ólafur segir áherslur sinnar verða í anda manngildisstefnu Framsóknarflokksins. Hann hefur nokkrum sinnum komið á þing sem varaþingmaður og þá flutt mál um samgöngumál Reykvíkinga. Hann segir að það verði framhald á því þegar hann tekur sæti á þingi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×