Sport

Stefnan er sett á að vinna riðilinn

Blikastúlkur eru nú í Austurríki þar sem þær taka þátt í Evrópukeppni félagsliða kvenna. Með þeim í riðli eru SV Neulengbach frá Austurríki, Newtownabbey frá Norður-Írlandi og SU 1° Dezembro frá Portúgal. Fyrsti leikur Breiðabliks er í dag þegar stelpurnar mæta stöllum sínum frá Portúgal. Sigurvegari riðilsins kemst í aðra umferð en þar er einnig um riðla að ræða. Sú umferð fer fram um miðjan september.

Guðmundur Magnússon, þjálfari Breiðabliks, telur fyrirfram að gestgjafarnir í SV Neulengbach séu sterkasti mótherjinn í riðlinum. "Ef staða landsliða þessara þjóða er skoðuð eigum við þó góða möguleika á að komast áfram", sagði Guðmundur og bætti við að stefnt væri að því vinna riðilinn og myndi Breiðablik þá meðal annars mæta Evrópumeisturum Frankfurt í öðrum riðli.

Þetta er í annað sinn sem Breiðablik tekur þátt í Evrópukeppni félagsliða kvenna en keppnin fór fyrst fram árin 2001/2002. Þrátt fyrir það er þetta í þriðja sinn sem Breiðablik öðlast þátttökurétt en liðið tók ekki þátt haustið 2001 þar sem margir af bestu leikmönnum þess voru farnir erlendis til náms. "Við stefnum á að vinna riðilinn," sagði Ólína G. Viðarsdóttir, fyrirliði liðsins.

"Þetta verður stórskemmtilegt og stemningin er allt öðruvísi í þessum Evrópuleikjum heldur en þegar við erum að spila í deildinni heima," sagði Ólína. Leikurinn í dag verður klukkan 13:30 að íslenskum tíma en á fimmtudaginn komið að leik gegn heimastúlkum frá Austurríki og lokaleikur riðilsins er gegn Newtownabbey Strikers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×