Menning

Ljóðabókaflóð Bjarts

Steinar Bragi, sem sendir brátt frá sér bókina Hið stórfenglega leyndarmál heimsins, hefur leika í kvöld.
Steinar Bragi, sem sendir brátt frá sér bókina Hið stórfenglega leyndarmál heimsins, hefur leika í kvöld.

Hjá Bjarti hafa nýlega komið út þrjár glæsilegar ljóðabækur, sannkallað ljóðabókaflóð í lok október. Af því tilefni verður haldin ljóðahátíð á Næsta bar, Ingólfsstræti 1a, miðvikudagskvöldið 25. október, klukkan 20.00, þar sem lesið verður upp úr þessum nýju dúndurbókum.

Ingunn Snædal les úr bók sinni Guðlausir menn - hugleiðingar um jökulvatn og ást, sem hlaut bókmenntaverðlaun Tómsar Guðmundssonar nú í október og sem Silja Aðalsteinsdóttir kallaði "dúndurbók" í Lesbók Morgunblaðsins um helgina. Óskar Árni Óskarsson les úr bókinni Loftskip, en Óskar Árni hlaut fyrr á þessu ári Ljóðstaf Jóns úr Vör. Sérlegur fulltrúi Bjarts mun lesa upp úr bók Vésteins Lúðvíkssonar; Sumir láta einsog holdið eigi sér takmörk, en Vésteinn er búsettur í Asíu.

Tveir skáldsagnahöfundar Bjarts taka þátt í hátíðinni, ólmir af spenningi yfir væntanlegum eigin upplestrum því bækurnar þeirra eru rétt ókomnar úr prentun: Steinar Bragi, sem sendir í haust frá sér skáldsöguna Hið stórfenglega leyndarmál Heimsins, ætlar að hefja leika með léttum lestri úr eldri ljóðum sínum og sérlegur kynnir er hinn góðkunni útvarpsmaður, og höfundur skáldsögunnar Undir Himninum, Eiríkur Guðmundsson . Mun hann bjóða gesti velkomna og kynna skáldin til leiks. Verður þetta stutt, hnitmiðuð og bráðskemmtileg dagskrá, og er fólki því bent á að mæta tímanlega. Aðgangur er að sjálfsögðu ókeypis og öllum heimill.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.