Enski boltinn

Kemur Bellamy til varnar

Craig Bellamy hefur oft látið skapið hlaupa með sig í gönur, en Benitez segir hann til fyrirmyndar hjá Liverpool
Craig Bellamy hefur oft látið skapið hlaupa með sig í gönur, en Benitez segir hann til fyrirmyndar hjá Liverpool NordicPhotos/GettyImages

Rafa Benitez hefur nú komið framherja sínum Craig Bellamy til varnar eftir að aðstoðarstjóri Newcastle klagaði hann fyrir kjaftbrúk eftir leik Liverpool og Newcastle í ensku úrvalsdeildinni á miðvikudagskvöldið. Terry McDermott kallaði Bellamy strigakjaft og sagði að hann væri byrjaður með sömu stæla hjá Liverpool og hefðu gert hann útlægan hjá Newcastle á sínum tíma.

"Mér er alveg sama um fortíð Craig Bellamy, hann hefur verið til fyrirmyndar síðan hann gekk í raðir okkar," sagði Benitez. "Það er nóg að skoða hvað hann gerir fyrir okkur á vellinum. Hann vann mjög góða varnarvinnu fyrir okkur fram á síðustu mínútu á miðvikudaginn og stóð sig vel.

Utan vallar get ég lofað ykkur að Bellamy er einbeittur og gerir allt sem hann getur til að hjálpa liðinu. Ég ræddi við hann áður en hann gekk í raðir okkar á sínum tíma og þá fann ég að hann gerði sér grein fyrir því að hann væri á síðasta séns með að festa sig í sessi hjá stórliði.

Bellamy vill nýta tækifæri sitt til fullnustu og er frábær á æfingum. Hann hefur ekki lent í neinum vandamálum og aðlagast öllu mjög vel. Hann vill ólmur sanna sig hjá Liverpool og ég get ekkert annað sagt um hann. Kannski átti hann í vandræðum þegar hann var hjá Newcastle, en ég er ekkert viss um að það hafi verið svo alvarlegt," sagði Benitez.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×