Fótbolti

Landsliðsfyrirliðinn hógvær eftir sigurmarkið gegn Celta Vigo

Eiður Smári Guðjohnsen
Eiður Smári Guðjohnsen

Eiður Smári Guðjohnsen var aðeins þrettán mínútur að stimpla sig inn í spænska boltann en hann gerði sigurmark Spánar- og Evrópumeistara Barcelona gegn Celta Vigo í 1. umferð spænsku deildarkeppninnar. Mark Eiðs kom tveim mínútum fyrir leikslok en honum var skipt inn á fyrir Ludovic Guily stundar­fjórðungi fyrir leikslok þegar staðan í leiknum var 2-2.



"Það var algjör draumur að skora í fyrsta leiknum mínum," sagði landsliðsfyrirliðinn eftir leikinn þar sem hann var umkringdur fréttamönnum. Þótt Eiður væri hátt uppi var stutt í hógværðina. "Engu að síður eru stigin það sem skipta mestu máli en ekki markið mitt. Það er gaman að heyra fólk bera mig saman við Henrik Larsson en það verður erfitt að slá hans árangri hjá félaginu við."



Samuel Eto"o hefur farið mikinn í upphafi tímabils, látið til sín taka á vellinum sem og í viðtölum og einnig fór hann í fýlu er honum var skipt af velli fyrir Eið á dögunum. Hann rauk heim til sín í stað þess að klára að horfa á leikinn. Hann sendi félögum sínum skilaboð eftir leikinn í gær.

"Við erum með frábæran hóp en leikmenn þessa liðs verða að vera einbeittari þegar þeir halda að engin hætta sé á ferðum," sagði Eto´o, sem verður greinilega áberandi í vetur.- hbg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×