Nú hefur verið tilkynnt hvaða leikmenn skipa byrjunarlið Austur- og Vesturstrandar í árlegum Stjörnuleik í NBA deildinni, en hann fer fram í 55. skipti þann 19. febrúar. Leikurinn verður háður í Houston-borg að þessu sinni og verður sýndur í beinni útsendingu á Sýn.
Athygli vekur að enginn leikmaður frá efsta liði Deildarinnar, Detroit Pistons, er í byrjunarliði Austurstrandarinnar en valið er byggt á kosningu aðdáenda um allan heim. Það var kínverski risinn Yao Ming sem fékk flest atkvæði í kosningunni, fékk rúmar 2,3 milljónir atkvæða. Varamenn beggja liða verða svo valdir af þjálfurum liðanna í deildinni eftir nokkra daga.
Lið Vesturstrandarinnar skipa þeir Tim Duncan- San Antonio, Tracy McGrady - Houston, Yao Ming - Houston, Kobe Bryant - LA Lakers og Steve Nash - Phoenix.
Austurstrandarliðið er skipað þeim Shaquille O´Neal - Miami, Dwayne Wade - Miami, LeBron James - Cleveland, Allen Iverson - Philadelphia og Jermaine O´Neal - Indiana, en sá síðastnefndi er þó meiddur og mun að öllum líkindum missa af leiknum, svo vera má að Ben Wallace hjá Detroit komi inn í byrjunarliðið í hans stað.