Menning

Rithöfundar með jólahroll

Ævar Örn Jósepsson, rithöfundur
Les úr bók sinni Sá yðar sem syndlaus er á morgun.
Ævar Örn Jósepsson, rithöfundur Les úr bók sinni Sá yðar sem syndlaus er á morgun. MYND/Heiða

Það verður jólahrollur í Þjóðmenningarhúsinu fram að jólum en þar verður boðið upp á samnefnda upplestrardagskrá. Tólf rithöfundar eða staðgenglar þeirra munu kveðja sér hljóðs þar líkt og jólasveinarnir sem tínast nú til byggða einn af öðrum, og lesa úr nýjum spennusögum.

Lesturinn hefst kl. 12.15 alla dagana. Að honum loknum býðst áhlýðendum súputilboð í veitingastofu Þjóðmenningarhússins.

Riðið verður á vaðið með spennusögu Arnaldar Indriðasonar, Konungsbók, og mun leikarinn Ingvar E. Sigurðsson lesa úr verkinu í dag. Í þessari viku er síðan von á rithöfundunum Ævari Erni Jósepssyni, Stefáni Mána, Braga Ólafssyni, Einari Hjartarsyni og Stellu Blómkvist en fyrir þann dulúðuga höfund les Ólafía Hrönn Jónsdóttir leikkona.

Sérstök athygli er vakin á því að Konungsbók sú sem bók Arnaldar Indriðasonar er nefnd eftir er engin önnur en Konungsbók Eddukvæða, handrit frá um 1270 sem er nú til sýnis í Þjóðmenningarhúsinu. Af þessu tilefni býðst þeim sem hlýða á upplestur Ingvars E. Sigurðssonar úr Konungsbók í dag að skoða handritið án þess að greiða aðgangseyri að sýningunni.

Þar eru aukinheldur til sýnis ýmis merkustu skinnhandrit frá miðöldum, svo sem Flateyjarbók og valin handrit lagabóka, kristilegra texta og Íslendingasagna, og auk þess nokkur mikilvæg pappírshandrit frá seinni öldum. Leiðsögumaður Þjóðmenningarhússins verður á staðnum og veitir gestum nánari upplýsingar um handritin.

Í Þjóðmenningarhúsinu standa enn fremur yfir sýningar á íslenskri tískuhönnun og þýskri bóklist. Þrjátíu og átta úrvalsverk eftir tíu íslenska hönnuði sýna fjölbreytni og sköpunarkraft tískugeirans en á sýningu á bókum Berlínar-forlagsins Edition Mariannenpresse, Berlin Excursion, er boðið til skoðanaferðar um þann geira menningarlífs Berlínar sem getur af sér sérstæðar bækur, sannkölluð listaverk, því um er að ræða sérstaklega hannaðar bækur sem flestar eru gerðar í samvinnu rithöfundar og myndlistarmanns og gefnar út í mjög takmörkuðu tölusettu upplagi.

Yrsa Sigurðardóttir rithöfundur á lokaorðið í Jólahrollinum og les upp í hádeginu á Þorláksmessu.


.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.