Liverpool bar sigurorð af Luton Town 5-3 í lokaleik dagsins í FA bikarnum á Englandi, en leikurinn var bráðfjörugur og var sýndur í beinni útsendingu á Sýn. Heimamenn í Luton Town komust í 3-1 í leiknum, en Liverpool sýndi klærnar í síðari hálfleik og tryggði sér sigurinn.
Steven Gerrard kom Liverpool í 1-0 snemma leiks, en eftir það tók Luton öll völd á vellinum og skoraði þrjú mörk í röð. Evrópumeistararnir voru þó ekki af baki dottnir þeir Sinama Pongolle og Xabi Alonso tryggðu liðinu sigurinn með fjórum mörkum á síðasta hálftímanum. Mörk þess síðarnefnda voru sérlega glæsileg og það síðasta skoraði hann til að mynda af um 60 metra færi eftir að markvörður Luton hafði brugðið sér með í sóknina til að freista þess að jafna leikinn á lokasekúndunum.