Breska slúðurpressan gerir því nú skóna að Rafael Benitez, stjóri Liverpool, muni gera Tottenham kauptilboð í enska landsliðsframherjann Jermain Defoe í sumar. Benitez er þó ekki sagður muni bjóða hátt í framherjann, því honum þykir verðmiðinn á enskum leikmönnum vera út í hött.
Talið er víst að Defoe muni kosta um tíu milljónir punda ef hann fer frá Tottenham, en sú staðreynd að hann hefur verið á varamannabekk liðsins að undanförnu virðist hafa kveikt undir orðrómi um að hann sé ósáttur og vilji fara frá Tottenham, sem mætir Liverpool á Anfield á morgun. Þar munu þeir Ledley King og Edgar Davids væntanlega verða klárir í slaginn með Tottenham á ný eftir meiðsli og það eru sannarlega góðar fréttir fyrir Lundúnaliðið sem á erfitt verkefni fyrir höndum á Anfield.