Erlent

Reiðibál í löndum múslima

Ólæti í Palestínu.
Ólæti í Palestínu.

Fundur leiðtoga íslamskra ríkja í hinni helgu borg Mekka í desember síðastliðnum virðist hafa verið sá frjói jarðvegur sem Múhameðsmyndunum umdeildu var sáð í. Þaðan dreifðust þær um öll Mið-Austurlönd og kveiktu það reiðibál sem nú logar í löndum múslima.

Enn einn daginn mótmæltu múslimar í öllum heimshornum Múhameðsmyndunum umdeildu. Palestínumenn á Gaza-ströndinni brenndu danska fánann venju samkvæmt og á Indlandi var efnt til svipaðra uppákoma. Í Kúala Lúmpúr, höfuðborg Malasíu, einu fjölmennasta múslimaríki heims, var boðað til stórrar kröfugöngu og við það tækifæri flutti forsætisráðherra landsins sannkallaða þrumuræðu. Sagði hann allt í senn krossferðirnar, vestræna heimsvaldastefnu og Ísraelsríki hafa leitt til togstreitunnar sem sé á milli Vesturlanda og Íslams.

Ekkert lát virðist þannig á þessari dæmalausu reiðiöldu sem virðist farin að snúast um annað og meira en skopmyndir Jótlandspóstsins. Nú eru að verða fimm mánuðir síðan myndirnar birtust fyrst en til að byrja með var gremja múslima að mestu bundin við Danmörku. Síðla októbermánaðar neitaði Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, að hitta sendiherra nokkurra múslimaríkja þar sem prentfrelsi ríkti í landinu og deilan því ekki mál ríkisstjórnarinnar. 7 desember síðastliðinn virðast hins vegar vatnaskil hafa orðið í deilunni þegar leiðtogar íslamskra ríkja hittust á fundi í Mekka í Sádi-Arabíu. Utanríkisráðherra Egyptalands mætti til fundarins með myndirnar umdeildu, auk þriggja mynda sem danskir múslimar bættu í bunkann, að því er virðist til að kynda enn undir ólguna. Þaðan dreifðust myndirnar svo um öll Mið-Austurlönd. Fyrir tveimur vikum hvöttu yfirvöld í Sádi-Arabíu til að danskar vörur yrðu sniðgengnar og þremur dögum síðar hófust mótmælin fyrir alvöru á Gaza. Þar með var flóðbylgju mótmæla hrundið af stað sem ekki sér enn fyrir endann á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×