Innlent

Dregur saman með Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum

Samfylkingin dregur á Sjálfstæðisflokkinnn í fylgi samkvæmt nýrri kosningakönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir Samfylkinguna. Ef niðurstöðurnar gengju eftir í kosningum í vor fengju flokkarnir sjö borgarfulltrúa hvor og Vinstri - grænir einn.

Í könnuninni var spurt þriggja spurninga til að auka áreiðanleika könnunarinnar. Fyrst var spurt: Ef borgarstjórnarkosningar væru haldnar á morgun, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa? Þeir sem ekki sögðust vita það voru spurðir áfram: En hvaða flokk eða lista telurðu líklegt að þú munir kjósa? Þeir sem enn voru óvissir voru þá spurðir: En hvort heldurðu að það sé líklegra að þú kjósir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern annan flokk eða lista? Markmiðið með þessu var að fækka óákveðnum kjósendum.

Ef litið er á niðurstöður þessara þriggja spurninga kemur í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn fengi 45,6 prósent og sjö borgarfulltrúa ef kosið yrði nú, Samfylkingin 40,1 prósent og einnig sjö borgarfulltrúa, Vinstri- gærnir 8,3 prósent og einn fulltrúa en hvorki Framsóknarflokkur með 3,7 prósenta fylgi né Frjálslyndir með 1,4 prósenta næðu inn borgarfulltrúa.

Félagsvísindastofnun gerði könnunina 14. - 19. febrúar. Stuðst var við 800 manna slembiúrtak úr þjóðskrá sem náði til Reykvíkinga á aldrinum 18-80 ára. Svarhlutfall var 71,4 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×