Sport

Kynþáttafordómar skyggðu á sigur Barca

Hér má sjá hvar dómari leiksins reynir að sannfæra Eto´o um að ganga ekki af leikvelli í gærkvöldi.
Hér má sjá hvar dómari leiksins reynir að sannfæra Eto´o um að ganga ekki af leikvelli í gærkvöldi.

Barcelona bar sigurorð af Real Zaragoza 2-0 í kvöldleiknum í spænsku úrvalsdeildinni í gærkvöldi, en fáránleg framkoma stuðningsmanna Zaragoza í garð framherjans Samuel Eto´o hjá Barcelona var til háborinnar skammar. Dómari leiksins og samherjar hans náðu naumlega að hindra að Eto´o gengi af leikvelli vegna kynþáttafordóma.

Í leik sem sýndur var beint á Sýn í gærkvöldi mátti greina að Eto´o var alvara með hótunum sínum, því félagar hans og dómarinn héngu í honum þegar hann ætlaði að ganga af velli vegna ágangs áhorfenda. Það var þó Eto´o sem átti síðasta orðið, því Barcelona skoraði tvö mörk með skömmu eftir uppákomuna og lagði Eto´o annað þeirra upp með glæsilegum hætti.

Brasilíumaðurinn Ewerthon hjá Zaragoza var mjög ósáttur við framkomu áhorfenda liðsins og benti réttilega á það í viðtali eftir leikinn að hann væri sjálfur dökkur á hörund og því þætti sér fáránleg hegðun áhorfendanna fyrir neðan allar hellur. "Ég er nú einu sinni svartur á hörund eins og hann. Knattspyrnusambandið verður að gera eitthvað í þessu máli, því þetta getur ekki haldið svona áfram. Það er ekki hægt að vinna undir svona kringumstæðum," sagði Ewerthon.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×