Viðskipti innlent

Verðbóla eykst um 1,12 prósent

Hagstofa Íslands er við Borgartún í Reykjavík.
Hagstofa Íslands er við Borgartún í Reykjavík. Fréttablaðið/Stefán

Verðbólguvísitalan hækkaði um 1,12 prósent milli febrúar og mars samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands. Hækkunin er heldur meiri en greiningardeildir bankanna höfðu spáð. Verðbólga án húsnæðis hækkaði um 1,17 prósent frá því í febrúar.

Vísitala neysluverðs í mars 2006 er 252,3 stig og án húsnæðis er vísitalan 233,6 stig. Greiningardeildir bankanna spáðu því að hækkun verðbólgunnar yrði á bilinu 0,7 til 0,9 prósent.

Í Vegvísum greiningardeildar Landsbankans í gær er veiking krónunnar síðustu daga auka, að öllu óbreyttu, líkur á hærra verðlagi þegar frá líður.

„Vetrarútsölum er nú víðast lokið og hækkaði verð á fötum og skóm um 16,9% (vísitöluáhrif 0,72%). Verð á eigin húsnæði í vísitölu neysluverðs hækkaði um 1,1% (0,19%)," segir Hagstofa Íslands.

Verðbólga síðustu tólf mánaða nemur 4,5 prósentum, en sé verð á húsnæði ekki tekið með í reikninginn nemur hækkunin um 1,8 prósentum.

Síðustu þrjá mánuði hefur verðbólga aukist um 1,4 prósent, en það segir Hagstofan jafngilda 5,6 prósenta verðbólgu á ári, eða 2,8 prósenta verðbólgu fyrir vísitöluna án húsnæðis.

„Vísitala neysluverðs í mars 2006, sem er 252,3 stig, gildir til verðtryggingar í apríl 2006. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 4.982 stig fyrir apríl 2006," segir Hagstofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×