Erlent

Verkamannaflokkurinn galt afhroð

Tony Blair, formaður Verkamannaflokksins
Tony Blair, formaður Verkamannaflokksins MYND/Reuters

Mikil uppstokkun var gerð á ráðherraliði Verkamannaflokksins í Bretlandi í morgun. Innanríkisráðherrann var rekinn og nýr utanríkisráðherra skipaður. Flokkurinn galt afhroð í sveitarstjórnarkosningum í gær og eru ráðherraskiptin viðbörgð Blairs forsætisráðherra við þeim úrslitum.

Það var ljóst snemma í morgun að mikilla tíðinda væri að vænta úr Downingstræti tíu. Kosið var í 176 sveitastjórnum í gær og samkvæmt nýjustu tölum hlaut Verkamannaflokkurinn 1174 sæti í 26 stjórnum og tapaði 288 sætum og þar með 18 sveitastjórnum. Á sama tíma hlaut Íhaldsflokkurinn 68 stjórnir.

Kosningaþátttaka var ekki nema 36%, tveimur prósentum minni en 2004. Þrátt fyrir það eru niðurstöðurnar vísbending um viðhorf kjósenda til stjórnarinnar. Því var ljóst að Tony Blair, forsætisráðherra, yrði að hrista rækilega upp í ráðherraliði sínu til að bregðast við niðurstöðunum.

Charles Clarke, innanríkisráðherra í bresku ríkisstjórninni, var látinn taka pokann sinn og við tók John Reid, varnarmálaráðherra. Clarke hefur lent í vandræðum eftir að í ljós kom að ríflega eitt þúsund glæpamönnum af erlendu bergi brotnu hafði verið sleppt án þess að fjallað hefði verið um hvort reka ætti þá úr landi. Í kjölfar þess voru kröfur um afsögn Clarke háværar.

Jack Straw var lækkaður í tign og látinn víkja úr utanríkisráðuneytinu. Hann verður forseti neðri deildar þingsins. Margaret Beckett sest í stól utanríkisráðherra.

Það kom mörgum á óvart að John Prescott, varaforsætisráðherra, verður ekki látinn víkja þrátt fyrir kynlífshneyksli. Hann sleppur þó ekki við refsingu því einhver verkefni verða tekin af könnu hans.

Auk alls þessa flyst Alastair Darling samgönguráðherra yfir í viðskiptaráðuneytið og Geoff Hoon, fyrrverandi varnarmálaráðherra, tekur við Evrópumálunum.

Þingmenn verkamannaflokksins eru misánægðir með breytingarnar og margir segja ekki nægilega langt gengið. Réttast væri að skipta líka um kallinn í brúnni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×