Erlent

Enn loga eldar í Noregi

Skógareldar loga enn á eyjunni Sotru í Noregi og óvíst hvenær slökkviliðsmönnum tekst að ráða niðurlögum þeirra. Flytja þurfti um 70 manns frá heimilum sínum í nótt af ótta við að eldarnir myndu læsa sig í heimili þeirra.

Eldarnir kviknuðu á eyjunni Sotru, nálægt Björgvin, síðdegis í gær. Skömmu eftir útkall töldu slökkviliðsmenn að þeir hefðu náð tökum á eldinum og slökkt hann. Sú varð ekki raunin því eldurinn blossaði upp á ný í nótt. Flytja þurfti um sjötíu manns frá heimilum sínum í nótt þar sem óttast var að eldurinn myndi teygja sig í nálæg hús. Eldurinn nær yfir um tíu ferkílómetra svæði frá Morland í suðri til Fjæreida í norðri. Til samanburðar náðu sinueldarnir á Mýrum í síðasta mánuði yfir um eitt hundrað ferkílómetra svæði þannig að eldarnir í Noregi nú eru tíu sinnum minni. En þótt eldarnir á Sotru séu minni breiddu hratt úr sér vegna þess hve mikill vindur var á svæðinu í nótt. Talið er að um íkveikju sé að ræða og lögregla auglýsir því eftir upplýsingum frá almenningi sem gætu hjálpað til við að hafa upp á brennuvarginum.

Betur gekk að ráða niðurlögum skógarelda sem kviknuðu í Kanadaskógi í Björgvin í gærkvöldi. Talið er að eldurinn hafi kviknað út frá grilli en efnt hafði verið til grillveislu á strönd rétt í skógarjaðrinum. Skotfærageymsla er staðsett í skóginum og þegar var farið í að fjarlægja allt þaðan út. Á meðan börðust slökkviliðsmenn við eldana og tókst að ráða niðurlögum þeirra um klukkan fjögur í nótt að íslenskum tíma. Þá var þegar búið að tryggja að nálæg hús væru ekki í hættu. Óttast er að eldur kunni að kvikna á ný þar sem vindasamt er á svæðinu. Því verða slökkviliðsmenn á vakt fram eftir nóttu.

Yfirvöld í Noregi segja hættu á skógareldum og sinubruna á mörgum svæðum og því er fólk beðið um að fara varlega með eld í því árferði sem nú er.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×