Erlent

Togstreita milli Blair og Brown

Togstreitan á milli þeirra Tony Blairs, forsætisráðherra Bretlands, og Gordons Brown, fjármálaráðherra, hefur náð nýjum hæðum eftir útreiðina sem Verkamannaflokkurinn fékk í sveitarstjórnarkosningunum á Englandi í síðustu viku.

Stuðningur þingmanna breska Verkamannaflokksins við Tony Blair forsætisráðherra virðist fara óðum þverrandi. Dagblaðið Independent birti í morgun bréf undirritað af 50 þeirra þar sem skorað er á Blair að lýsa því yfir áður en sumarleyfi þingmanna hefjast hvenær hann hyggist eftirláta Gordon Brown fjármálaráðherra völdin í ríkisstjórninni.

Blair hefur hingað til sagt ætla sitja sem fastast út kjörtímabilið en úrslitin í ensku sveitarstjórnarkosningunum þar sem Verkamannaflokkurinn tapaði miklu fylgi hafa veikt stöðu hans innan flokksins. 70 þingmenn þarf til að knýja fram leiðtogakjör.

Í viðtali á BBC í morgun varaði Brown samherja í flokknum við að fremja hallarbyltingu, slíkt væri ávísun á algera sundrungu. Í staðinn hvatti hann til samstöðu og benti á að viðræður á milli þeirra Blairs um "endurnýjun í flokknum," eins og hann sjálfur orðaði það væru þegar í gangi.

Þingmenn Verkamannaflokksins hittast á morgun í þinghúsinu í Westminster og ræða úrslit kosninganna fyrir helgi. Búist er við að hörð hríð verði gerð að forsætisráðherranum þar.

Ekki virðast öll kurl komin til grafar í hneykslismálunum sem skekið hafa flokkinn undanfarið því Sky-sjónvarpsstöðin greindi frá því í morgun að Scotland Yard rannsakaði nú hvort John Prescott aðstoðarforsætisráðherra hefði gerst brotlegur við lög með því að hafa samræði við hjákonu sína Tracy Temple í stjórnarskrifstofunum í Whitehall, en í landslögum er sett blátt bann við slíkri hegðan hjá embættismönnum við skyldustörf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×