Innlent

Samþykktu nýgerðan samning við OR

Félagar í Starfsmannafélagi Reykjavíkur sem vinna hjá Orkuveitu Reykjavíkur samþykktu í dag nýjan kjarasamning sem gerður var í fyrradag. Tæplega helmingur félaganna, eða 108 manns, neytti atkvæðisréttar síns og sögðu 85 prósent já við samningnum. Kjaraviðræður hafa staðið lengi en síðasti kjarasamningur rann út 1. desember síðastliðinn.

Samningurinn er fyrsti sjálfstæði kjarasamningurinn sem gerður er við Orkuveituna en henni var breytt í sjálfstæða stofnun eftir að síðasti samningur var gerður. Hinn nýi samningur gildir til 31. mars 2008 og færir félagsmönnum í Starfsmannafélaginu um 18 prósenta launahækkun að meðaltali á tímabilinu. Orkuveitan samdi líka við Eflingu í fyrradag og er stéttarfélagið nú að kynna hann fyrir umbjóðendum sínum sem svo greiða um hann atkvæði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×