Viðskipti innlent

Vöruinnflutningur 35,7 milljarðar í maí

Hægt hefur á innflutningi bíla.
Hægt hefur á innflutningi bíla. Mynd/E.Ól.
Vöruinnflutningur í maí nam 35,7 milljörðum króna virði ef marka má bráðabirgðatölur um innheimtu virðisaukaskatts. Í Vefriti fjármálaráðuneytisins segir að sé horft á hreyfingar á milli mánaða megi sjá að helstu drifkraftar innflutnings séu innfluttar hrá-, rekstrar- og fjárfestingarvörur. Aukninguna má að mestu rekja til stóriðjuframkvæmda.

Þá segir að innflutningur á eldsneyti hafi verið stór þáttur en hafa beri í huga að liðurinn sé afar sveiflukenndur milli mánaða og var lítið flutt inn af eldsneyti í apríl. Innflutningur á neysluvörum jókst nokkuð milli mánaða, einkum hálf-varanlegum neysluvörum á borð við heimilistæki.

Hins vegar hefur hægt á innflutningi bifreiða. Hann var kröftugur í upphafi árs og sérstaklega í mars en minnkaði í apríl. Í maí jókst innflutningur á bílum nánast ekkert milli mánaða sem er heldur óvenjulegt þar sem bílainnflutningur er jafnan mikill í upphafi sumars og nær oftast hámarki í júní á ári hverju, að því er fram kemur í Vefritinu.

Þá segir að tölur um nýskráningar á bílum í maí gefi ekki til kynna að bílakaup almennings hafi aukist frá sama tíma í fyrra miðað við þriggja mánaða meðaltal. Þó sé líklegt að gengislækkun krónunnar útskýri þróunina en gengið seig nokkuð hratt í mars. Muni innflytjendur og neytendur hafa gripið gæsina þar sem innflutningur í þeim mánuði hafi verið afgreiddur á tollgengi fyrri mánaða og aukið innflutninga bíla áður en tollgengið hækkaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×