Erlent

Þrjátíu ár liðin frá uppþotunum í Soweto í Suður Afríku

Mynd/AP
Þrjátíu ár eru liðin frá uppþotunum í Soweto í Suður Afríku sem urðu kveikjan að andstöðu við aðskilnaðarstefnuna sem síðan leið undir lok árið 1991. Þeirra var minnst með fjölmennri göngu um götur borgarinnar í dag. Rúmlega þúsund manns tóku þátt í göngunni í Soweto í dag með Thabo Mbeki, forseta Suður-Afríku fremstan í flokki. Gengið var um hverfi, sem einungis voru byggð fyrir svarta á tímum aðskilnaðarstefnunnar.

Meira en fimm hundruð manns létu lífið í mótmælunum sextánda júní 1976 eftir að lögregla hóf skothríð á mótmælendur sem flestir voru ungir námsmenn. Margir leiðtogar námsmannanna voru einnig handteknir eða reknir í útlegð. Námsmenn voru að mótmæla því að einungis væri kennt á Afrikaan sem var opinbera tungumálið þegar aðskilnaðarstefnan var í gildi, þegar lögreglan hóf skothrýð á þá.

Masando borgarstjóri sagði í dag að uppþotin í Soweto hefðu markað mikilvæg þáttaskil í lífi svartra Suður-Afríku búa og hefðu að mörgu leyti verið kveikjan að almennri uppreisn gegn aðskilnaðarstefnunni.

Mokoena, einn af leiðtogum mótmælagöngunnar 1976 sagði í dag, að hann sæi gönguna fyrir þrjátíu árum ljóslifandi fyrir sér. Hann sagði jafnframt að sú ganga hefði verið enn hátíðlegri en í dag, eða þar til lögreglan hóf að skjóta á óvopnaða námsmennina sem margir hverjir voru með friðarmerki á lofti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×